Mixtura - Kvikmyndalæsi

Kvikmyndalæsi

FYRIR GRUNNSKÓLAKENNARA  HAUSTIÐ 2016

 

Skráning

KENNARI: Oddný Sen, kvikmyndafræðingur

 

Á þessu námskeiði tökum við fyrir nokkra af  mikilvægustu kvikmyndaleikstjórum sögunnar og greinum nokkrar af helstu kvikmyndum þeirra. Markmiðið er að gefa nemendum eins mikla innsýn í sköpun þeirra og völ er á og hef ég því sett saman efni sem ætti að veita greinargóða þekkingu á notkun leikstjóranna á kvikmyndunum sem miðli og áhrifum á kvikmyndagerð nútímans. Það verður vandlega rýnt í kvikmyndir þeirra, auk þess sem farið verður yfir allar þær nýjungar sem þeir komu með fram á sjónarsviðið. Þessir leikstjórar eru David Lynch, Tim Burton, Francis Ford Coppola og Robert Altman.

Námskeiðið verður haldið á eftirfarandi dögum:

1. David Lynch - föstudaginn 28. október kl. 14:30

2. Tim Burton – föstudaginn 4. nóvember kl. 14:30

3. Francis Ford Coppola – föstudaginn 11. nóvember kl. 14:30

4. Robert Altman – föstudaginn 18. nóvember kl. 14:30

 

1. DAVID LYNCH – föstudaginn 28. október kl. 14:30

 TWIN

 

Hver man ekki eftir Twin Peaks þáttunum sem David Lynch gerði fyrir sjónvarpið? Nú vill svo skemmtilega til að framhaldið er í vinnslu. Myndir David Lynch einkennast af því sem hefur verið kallað “Nýjar bandarískar goðsagnir” en í myndum Lynch má finna beinar vísanir í goðsagnir og frásagnir úr bandarísku þjóðlífi, hvort sem þær gerast í smábæ eða í Hollywood. Mikið er um þjóðvegi, úthverfi, kúreka, matstofur, sápuóperur og sjónvörp og myndirnar gerast oft í smábæjum þar sem tveir ólíkir heimar mætast.

Við könnum feril David Lynch og rýnum í helstu myndir hans um leið og við tengjum þær við súrrealismann í kvikmyndum og helstu myndir sem hafa haft áhrif á hann eins og til dæmis Galdrakarlinn í Oz.

Myndir til umfjöllunar og greiningar:

Elephant Man,

Blue Velvet,

Twin Peaks (sjónvarpsþættir)

Wild at Heart,

Lost Highway,

Mulholland Drive

  

 2. TIM BURTON – föstudaginn 4. nóvember kl. 14:30

 TIM

 

Flestir þekkja myndir Tim Burtons, enda hefur þessi hæfileikaríki kvikmyndaleikstjóri getið sér gott orð fyrir myndir sínar eins og Edward Scissorhands, Ed Wood, Batman-myndirnar og Lísu í Undralandi

Það sem færri vita er að Tim Burton notar myndir þýsku expressjónistanna frá 1919-1933 sem innblástur og má sjá vísanir í öllum myndum hans í verk eins og Nosferatu (1922) sem er jafnframt fyrsta vampírumynd allra tíma, Fást (1926) Metropolis (1927) og fleiri ógleymanlegar myndir. Hér gefst því gott tækifæri til að skoða kvikmyndasöguna með augum Burtons og rifja upp hvaða stórvirki liggja þar að baki.

Myndir til umfjöllunar og greiningar:

Edward Scissorhands,

Ed Wood,

Sleepy Hollow,

Batman,

Charlie and the Chocolate Factory,

Alice in Wonderland

3. FRANCIS FORD COPPOLA – föstudaginn 11. nóvember kl. 14:30

 FRANCIS

 

Francis Ford Coppola er einn af áhrifamestu leikstjórum Bandaríkjanna og tilheyrir nýbylgjunni sem hófst um sjöunda og áttunda áratugnum þegar leikstjórar á borð við Martin Scorsese, Steven Spielberg og Michael Cimino ásamt fleirum hösluðu sér völl í Hollywood og fóru að gera kvikmyndir undir miklum áhrifum frá frönsku nýbylgjunni, ítalskri kvikmyndagerð, japönskum kvikmyndum og klassískum Hollywoodmyndum.

Í þessum tíma vörpum við ljósi á Godfather þríleikinn og stórvirki Coppola, Apocalypse Now sem hefur haft mikil áhrif á kvikmyndir samtímans. Við skoðum líka heimildamyndina sem eiginkona hans, Eleanor Coppola gerði um tökurnar á Apocalypse Now, Hearts of Darkness: A Filmmaker´s Apocalypse.

Myndir til umfjöllunar og greiningar:

The Rain People

The Godfather

Apocalypse Now

Bram Stoker´s Dracula

ROBERT ALTMAN - föstudaginn 18. nóvember kl. 14:30

 ALTMAN

 

Í þessum tíma tökum við fyrir leikstjóra sem fór ekki troðnar slóðir og tókst að gera kvikmyndir í Hollywood sem voru oft með boðskap þar sem yfirborðsmennskan í Hollywood og formúlukennd framleiðsla var gagnrýnd á miskunnarlausan hátt. Altman gerði margar tegundir (genre) kvikmynda sem voru bráðsnjallar satírur með mjög persónulegu sjónarhorni. Hann notaði mikið sömu leikarana, sem nutu þess að leika undir stjórn hans, enda fengu þeir oft að spinna að vild. Altman gerði fjölmargar myndir og hér gefst ekki tóm til að fara yfir þær allar, en við skoðum ítarlega síðustu myndir hans eins og The Player, Short Cuts og Cookie´s Fortune.

Myndir til umfjöllunar og greiningar:

Mash

Nashville

A Wedding

Vincent and Theo

The Player

Short Cuts

Cookie´s Fortune

 

 

Oddný Sen tók saman, 2016

Prenta | Netfang

Mixtúra

Vefur Margmiðlunarvers Skóla- og Frístundasviðs. 
Margmiðlunarverið er staðsett í
Háaleitisskóla v/Stóragerði Sími: 5708800